Þórhallur Magnússon
Fyrirlestur við Heimspekideild Háskóla Íslands þann 18. apríl 2024.
Gervigreind ruddist með látum inn í samvitund okkar fyrir rúmu ári síðan. Tónlist og fræði hennar hafa ávallt verið tilraunastofa nýrrar hugsunar og tækni, og því eðlilegt að þýðing gervigreindar sé rannsökuð í gegnum tónlist á hagnýtan og skapandi hátt. Beiting skapandi gervigreindar getur spannað allt frá sjálfvirkri tónlistarsköpun til innleiðingar snjallra algríma í hljóðfærin sjálf. Hér vakna upp spurningar varðandi sköpun, list, siðfræði og þýðingu þess að vera skapandi manneskja. Við speglum okkur í gervigreindinni og hún hjálpar okkur að skýra og skilja þessi hugtök.
Í þessu erindi mun ég fjalla um tvennt: Annars vegar mun ég ræða skapandi gervigreind í samhengi við Sókratesíska aðferð (e. elenctics)—en það er sú heimspekilega aðferð sem miðar að því að örva gagnrýna hugsun og þróa þekkingu í gegnum samræður—og samskipti okkar við nútíma skapandi gervigreindarkerfi. Með hliðsjón af verklegri rannsókn í rannsóknarstofu okkar Intelligent Instruments Lab, sem nýlega flutti til HÍ í Veröld - Hús Vigdísar, legg ég fram nýjan ramma fyrir rannsóknir á skapandi gervigreind og skoða þau hugtök og orðræðu sem verður til þegar slík grundvallarbreyting á sér stað í tækni tónlistar. Hins vegar mun ég ræða aðferðafræði rannsóknarstofunnar, sem gengur út á að framkvæma tilraunir er skoða hljóðfæri sem “boundary objects”, eða hluti sem skarast þvert á rannsóknarsvið. Þessi aðferð býður uppá þverfaglega nálgun þar sem rannsakendur deila þekkingu í eina heildarsýn og nota tilraunina á sínu eigin fræðilega sviði, hvort sem það eru tölvuvísindi, heimspeki, mannfræði eða hugarvísindi (e. congitive science).
Stutt æviágrip:
Þórhallur Magnússon er rannsóknarprófessor við Háskóla Íslands og prófessor framtíðartónlist við Sussex háskólann í Brighton. Verk hans beinast að áhrifum stafrænna tækni á tónlistarsköpun sem hann kannar í gegnum listrænar rannsóknir og hugvísindalega fræðimennsku. Auk fræðilegra starfa hefur hann þróað tónlistarforrit, skapandi gervigreind, skrifað kennsluefni í tölvutónlist og skrifað forrit fyrir lifandi kóðun (e. live coding) í tónlist.
Nýlega kom út eftir hann bókin Sonic Writing: The Technologies of Material, Symbolic and Signal Inscriptions, sem gefin var út af Bloomsbury Academic. Bókin rekur hvernig nútíma tónlistartækni á ættir sínar að rekja til forma hljóðfæra og miðla og er undirstaða núverandi rannsókna þar sem Þórhallur stýrir verkefni fjármagnað af Evrópska rannsóknarráðinu sem nefnist Intelligent Instruments. Þórhallur er einnig meðhöfundur bókarinnar Live Coding: A Users’ Manual sem gefin var út af MIT Press á síðasta ári.